Frétt

28. júlí 2011

Nýir eigendur hafa tekið við Sjóvá

Nýir eigendur hafa tekið við Sjóvá
SF1 slhf., félag í umsjón Stefnis hf., greiddi í dag Eignasafni Seðlabanka Íslands ehf. fyrir ríflega helming hlutafjár ( 52,4 %) í Sjóvá (Sjóvá-Almennum tryggingum hf). Á hluthafafundi, sem haldinn var í kjölfarið, tók ný stjórn við félaginu. Erna Gísladóttir er formaður nýkjörinnar stjórnar en fulltrúar SF1 í stjórn ásamt henni eru Ingi Jóhann Guðmundsson og Tómas Kristjánsson. Aðrir stjórnarmenn eru Heimir V. Haraldsson og Haukur C. Benediktsson. Engin lán voru tekin fyrir kaupunum, sem eru að fullu fjármögnuð með eigin fé kaupenda, og fer enginn hluthafa í SF1 með stærri hlut en sem svarar til 10% hlutdeildar í Sjóvá. Viðskiptin hafa nú þegar hlotið samþykki Fjármálaeftirlitsins og Samkeppniseftirlitsins.

Erna Gísladóttir: „Þessi tímamót eru fagnaðarefni, bæði fyrir okkur í SF1 og fyrir Sjóvá. Söluferli, sem staðið hefur í á annað ár, er lokið. Jafnframt er aflétt þeirri óvissu sem starfsfólk félagsins og viðskiptavinir hafa þurft að búa við undanfarin ár. Félagið er komið á traustan grunn og reynslumiklir aðilar úr atvinnulífinu ásamt nokkrum af stærstu lífeyrissjóðum landsins eru komnir að stjórn félagsins.

Við, fulltrúar SF1 í stjórn Sjóvár, hlökkum til að takast á við þetta verkefni með nýjum eigendum sem vilja byggja félagið upp til langframa í samstarfi við gott starfsfólk og trygga viðskiptavini. Allir hluthafar eru einhuga um að vinna saman að framgangi félagsins og stefna á að skrá það á markað 2013. Við horfum að sjálfsögðu fram á við en viljum byrja á að hverfa aftur til fortíðar til þess tíma þegar tryggingafélög einbeittu sér að tryggingum í stað þess að dreifa kröftunum í aðrar áttir. Að okkar áliti á tryggingafélag að vera klettur í ólgusjó lífsins, fólki til halds og trausts. Til að svo megi vera þarf eignarhald og rekstarlegar forsendur að vera mjög traustar. Þar tel ég líka ótvíræðan kost að við þremenningarnir, sem komum inn í stjórn félagsins fyrir hönd SF1, erum í hópi eigenda.“

Um SF1
Stærstu eigendur SF1 eru Gildi lífeyrissjóður, SVN eignafélag ehf. (félag í eigu Síldarvinnslunnar hf.), SÍA I (fagfjárfestasjóður undir stjórn rekstrarfélagsins Stefnis, en eigendur SÍA I eru meðal annars stærstu lífeyrissjóðir landsins), Frjálsi Lífeyrissjóðurinn, Lífeyrissjóðir Bankastræti 7 (LSR), Stapi Lífeyrissjóður og fagfjárfestasjóðurinn Stefnir ÍS-5. Aðrir eigendur SF1 eru Festa lífeyrissjóður, EGG ehf, (í eigu Ernu Gísladóttur), Arkur ehf. (í eigu Steinunnar Jónsdóttur), Lífeyrissjóður bænda, Sigla ehf. (í eigu Tómasar Kristjánssonar og Finns Reyrs Stefánssonar) og Draupnir fjárfestingafélag ( í eigu Jóns Diðriks Jónssonar).

Um Sjóvá
Sjóvá er alhliða vátryggingafélag með rúmlega 28% markaðshlutdeild og um 70 þúsund viðskiptavini. Hjá félaginu starfa um 200 manns og er félagið með starfsemi um allt land. Á síðasta ári voru eigin iðgjöld Sjóvár um 10,9 milljarðar króna.

Um Stefni
Stefnir hf, sem hafði forystu um kaupin fyrir hönd SF1, er sjálfstætt starfandi fjármálafyrirtæki sem rekur innlenda og alþjóðlega verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði fyrir einstaklinga og fagfjárfesta en einnig stýrir félagið eignum nokkurra samlagshlutafélaga sem stofnuð hafa verið í kringum framtaksfjárfestingar. Stefnir hf. er stærsta sjóðastýringarfyrirtæki landsins með um 300 milljarða króna í virkri stýringu. Hlutverk félagsins er að stýra fjármunum í eigu viðskiptavina með hagsmuni þeirra að leiðarljósi.
Til baka

Fleiri fréttir

15.janúar 2024

100% afsláttur af sjóðum til 5. febrúar

Í tilefni af verkefninu Konur fjárfestum er engin þóknun við kaup á sjóðum Stefnis frá 12. janúar til og með 5. febrúar 2024. Afslátturinn af þóknun gildir við...

29.ágúst 2023

Stefnir birtir fjármagnaðan útblástur gróðurhúsalofttegunda

Stefnir stýrir fjármunum fyrir hönd viðskiptavina sinna og leggur ríka áherslu á að gera það með ábyrgum og gagnsæjum hætti.

09.ágúst 2023

Stefnir styrkir Einvígið á Nesinu

Stefnir er stoltur styrktaraðili Einvígisins á Nesinu. Þetta árið hlaut Félag áhugafólks um Downs-heilkennið styrk Stefnis og Birgir Björn úr GK var sigurvegari...