Umboðsskylda Stefnis er rík og felur í sér að ávallt skulu teknar ákvarðanir fyrir hönd sjóða með hagsmuni eigenda sjóðanna í fyrirrúmi.
Sjóðir Stefnis kaupa og selja fjármálagerninga á markaði fyrir milligöngu verðbréfamiðlana. Þær verðbréfamiðlanir sem Stefnir á viðskipti við fyrir hönd sjóða geta verið innanlands og erlendis allt eftir eðli þeirra fjármálagerninga sem viðskipti eru með hverju sinni. Þeir aðilar sem teljast hæfir til þess að vera gagnaðilar Stefnis í viðskiptum með fjármálagerninga skulu undirgangast sérstaka áreiðanleikakönnun samkvæmt reglum Stefnis þar um.
Nokkur munur getur verið að umfangi þeirra viðskipta sem fara í gegnum verðbréfamiðlanir, almennt eru t.d. ekki greiddar viðskiptaþóknanir í frumútboðum en þá greiðir söluaðilinn þóknunina.
Stefnir hefur sett sér stefnu um verklag við framkvæmd viðskiptafyrirmæla þar sem útskýrt er með hvaða hætti viðskipti með verðbréf sjóða í rekstri félagsins skulu fara fram.
Útdráttur úr stefnunni lýsir því hvernig heildarmat á viðskiptaverði og kostnaði er almennt mikilvægasti þátturinn við mat á bestu framkvæmd. Stefnan í heild er birt hér.
Við framkvæmd fyrirmæla um viðskipti með fjármálagerninga eða aðrar eignir sjóða leitar Stefnir allra tiltækra leiða til að ná fram bestu mögulegu niðurstöðu með tilliti til eftirfarandi þátta:
- Verðs
- Kostnaðar
- Hraða
- Líkinda á framfylgd og greiðslu
- Umfangs
- Eðlis pantana
- Annarra þátta sem kunna að skipta máli í einstökum tilfellum
Við mat Stefnis á hlutfallslegu mikilvægi framangreindra þátta skal tekið tillit til:
- Markmiðs viðskipta
- Fjárfestingarstefnu eins og hún er skilgreind
- Áhættu eins og hún er metin á hverjum tíma
- Einkenna pöntunar
- Einkenna þeirra fjármálagerninga sem um ræðir
- Einkenna þeirra markaða sem unnt er að beina fyrirmælum til
Heildarmat viðskiptaverðs og kostnaðar vegna viðskipta er almennt mikilvægasti þátturinn við mat á bestu framkvæmd. Þó getur, við tilteknar aðstæður, hraði, líkindi þess að af viðskiptum verði, umfang og eðli viðskipta haft aukið vægi., s.s. möguleikinn á að framkvæma viðskipti í heild sinni. Út frá því mati er ákveðið hvar og hvernig fyrirmæli eru framkvæmd þannig að sem mestar líkur verði á að af þeim leiði bestu mögulegu niðurstöður.
Þær reglur sem Stefnir hefur sett í starfsemi sinni sem snúa að vali á gagnaðilum, reglum um framkvæmd viðskiptafyrirmæla, stefnu um hagsmunaárekstra og fjölda annarra innri reglna og verklags sem snýr að vandaðri framkvæmd viðskipta fyrir hönd sjóða í rekstri félagsins eru til þess fallnar að draga úr hættu á hagsmunaárekstrum. Móðurfélag Stefnis, Arion banki starfrækir verðbréfamiðlun og eiga sjóðir Stefnis viðskipti m.a. við hana. Með birtingu upplýsinga um hlutfallslega skiptingu viðskiptaþóknana sjóða í rekstri Stefnis við miðlun Arion banka og aðrar miðlanir viljum við stuðla að gagnsæi til hagsbóta fyrir eigendur sjóða.
Hlutfallsleg skipting miðlunarþóknana sjóða í rekstri Stefnis milli Arion banka og annarra miðlana frá árinu 2015

Einnig bendum við á að í árs- og árshlutareikningum sjóða má finna ítarlega sundurliðun gjalda sjóða þ.m.t. viðskiptakostnað þeirra.