Frétt

17. desember 2025

Stefnir styður við aukið aðgengi að íbúðum í sameignarformi

Stefnir styður við aukið aðgengi að íbúðum í sameignarformi
Sameignarform áfram í boði - leigan greidd mánaðarlega

Stefnir hefur gert breytingar á sameignarforminu sem sex sjóðir í rekstri fyrirtækisins hafa boðið fasteignarkaupendum í samvinnu við byggingaraðila. Breytingarnar fela í sér að leiga verður greidd mánaðarlega í stað þess að safnast upp.

Með þessu er komið til móts við ákvörðun fjármálastöðugleikanefndar Seðlabankans um að herða lánþegaskilyrði vegna sameignarsamninga. Sameignarformið mun áfram nýtast fólki við að komast inn á markaðinn með minna eiginfjárframlagi með því að byggingaraðili verður meðeigandi íbúðarinnar en greiðslubyrðin eykst sem nemur mánaðarlegri húsaleigu til meðeigandans. Húsaleigan mun greiðast með hefðbundnum hætti í upphafi hvers mánaðar, líkt og tíðkast á almennum leigumarkaði. Þá bætir það stöðu kaupenda að byggingaverktakar fylgi sínum eignum eftir til 10 ára í gegnum eignarhald í sjóði. Með því séu líkurnar enn meiri að um sé að ræða vandaðar eignir.

Þeir byggingaraðilar sem bjóða upp á sameignarformið eru Reir verk, ÞG, Kauplykill, Safír, Umbra og Öxar. Fleiri munu væntanlega bætast við á næstu vikum en viðtökur fasteignarkaupenda við þessum nýja valkosti hafa verið afar góðar.

Samkeppni um að bjóða hagstætt verð

Leiguverð sameignaríbúða sem seldar verða á þennan hátt verður nú ekki lengur bundið við hlutfall af kaupverði heldur föst fjárhæð. Leiguverð getur þannig verið mismunandi milli fasteigna og sjóða sem stuðlar að aukinni samkeppni um hagstæð kjör. Leigufjárhæðin sjálf verður verðtryggð líkt og almennt tíðkast í langtíma leigusamningum, enda verður um að ræða 10 ára leigusamninga. Sjóðirnir sem eru í eigu byggingaraðila en í rekstri Stefnis kaupa ýmist 20-25% hlut í fasteignum með kaupendum. Greitt er fyrir hlut meðeigandans með mánaðarlegri leigugreiðslu sem tekið er tillit til við greiðslumat kaupenda. Breytingunum er ætlað að stuðla að því að sameignarformið verði aðgengilegra og einfaldara í framkvæmd.

Kaupendur bera minni áhættu af þróun fasteignaverðs

Með breytingunum er ársleiga ekki lengur miðuð við 5% af kaupverði sjóðanna auk þess sem frestun á greiðslu húsaleigu er felld brott og þar með uppsöfnun ógreiddrar húsaleigu. Báðir þættir draga úr áhættu meðeigenda á þróun fasteignaverðs. Gerður verður einfaldur leigusamningur á milli meðeiganda og sjóðanna sem kemur til móts við ábendingar um að sameignarformið kunni að vera flókið fyrir kaupendur að átta sig á.

Aðkoma Stefnis að rekstri sameignarsjóða byggir á norrænni fyrirmynd

Stefnir byggir á áratuga reynslu í sjóðastýringu og leggur áherslu á ábyrgar fjárfestingar þar sem gagnsæi og áreiðanleiki eru í forgrunni. Í þessu verkefni nýtir félagið sérfræðiþekkingu sína til að brúa bilið milli byggingaraðila og samfélagslegra þarfa. Lausn sem fjölgar valkostum á fasteignamarkaði og hjálpar fjölmörgum að eignast húsnæði, stækka eða minnka við sig. Þessi leið byggir á fyrirkomulagi sem hefur reynst vel á Norðurlöndum, þar sem sameignarkaup á íbúðum er algengt form.

 

Til baka

Fleiri fréttir

17.desember 2025

Stefnir styður við aukið aðgengi að íbúðum í sameignarformi

Stefnir hefur gert breytingar á sameignarforminu sem sex sjóðir í rekstri fyrirtækisins hafa boðið fasteignarkaupendum í samvinnu við byggingaraðila...

20.nóvember 2025

Stefnir lýkur fjármögnun á fimmta framtakssjóði SÍA

Stefnir hf. hefur lokið fjármögnun á framtakssjóðnum SÍA V. Áskriftir í sjóðinn námu rúmum 15,2 ma.kr., en fjárfestar sjóðsins eru að mestu stofnanafjárfestar...

28.október 2025

Sjóðir Premíu: Ný nöfn, breytt fjárfestingarstefna og nýir flokkar þóknana

Stefnir hf. hefur á síðustu misserum ráðist í markvissar aðgerðir til að lækka gjöld hjá sjóðum félagsins.