Frétt

27. október 2022

Sjö ráðin til Stefnis

Sjö ráðin til Stefnis

Stefnir hefur ráðið sjö nýja starfsmenn þar af tvo sem munu starfa í hlutastarfi í nýju teymi sem ber heitið Greining, sala og samskipti. Hlutverk teymisins verður að efla greiningarstarf fyrirtækisins enn frekar og auka sýnileika félagsins. Nýja starfsfólkið sem býr yfir fjölbreyttri hæfni og menntun mun styrkja önnur stýringarteymi félagsins í sínum störfum.

Bjarni Ármann Atlason réð sig til félagsins í ágúst síðastliðinn og lauk námi frá Harvard þar sem hann hlaut hæstu einkunn í sinni deild og Hoopes verðlaunin fyrir framúrskarandi námsárangur. Meðfram námi starfaði Bjarni hjá Íslenskri erfðagreiningu þar sem hann var meðhöfundur ritrýndra vísindagreina.

Elísa Karen Guðmundsdóttir er með BS gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands. Síðast starfaði Elísa hjá Íslandsbanka í sjálfbærni og nýsköpun. Hún starfaði einnig með Íslandssjóðum og gerði verkefni sem fólst í því að leggja mat á kolefnisfótspor eignasafns Íslandssjóða.

Ellen Melkorka Hine er með BS gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hún hefur meðal annars starfað hjá SaltPay og Markaðs- og samskiptasviði Íslandsbanka. Einnig hefur hún lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Magdalena Anna Torfadóttir er með BS gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í fjármálum fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík. Hún starfaði sem aðstoðarritstjóri hjá Markaðnum, viðskiptariti Fréttablaðsins. Þá hefur hún haldið úti hlaðvarpinu Fjármálakastið og er formaður Ungra fjárfesta.

Róbert Vilhjálmur Ásgeirsson er með BS gráðu í fjármálaverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hann hefur starfað hjá Arion banka frá árinu 2021 nú síðast hjá Mörkuðum í teymi Eignastýringar fagfjárfesta. Helstu verkefni Róberts í eignastýringu voru tengd erlendum og innlendum sérhæfðum fjárfestingum ásamt því að þróa spálíkön.

Starfsmenn sem munu starfa í hlutastarfi með námi:

Baldvin Bjarki Gunnarsson stundar nám í fjármálaverkfræði við Háskólann Reykjavík. Hann hefur starfað í Viðskiptaumsjón Arion banka. Þá fór hann fyrir Málflutningafélaginu í Verzlunarskóla Íslands og stýrði hann bæði MORFÍS og Gettu Betur liði skólans með góðum árangri.

Helena Rut Pétursdóttir er með BS gráðu í viðskiptahagfræði og stjórnun frá University of Southern Denmark og er að ljúka MS gráðu í hagfræði og fjármálum. Hún hefur meðal annars unnið hjá Evrópska Seðlabankanum sem nemi og er afrekskona í Crossfit.

Jón Finnbogason, framkvæmdastjóri félagsins segist binda vonir við að þessi nýi liðsauki muni efla fyrirtækið enn frekar.

„Það er virkilega ánægjulegt að fá þennan liðsauka til okkar og tel ég að þessi nýstofnaða teymi muni auka sýnileika félagsins til muna. Það er ótrúlega gefandi að kynnast þessu fólki og finna hvað það er vel að sér og hvernig það dregur þekkingu að starfseminni fyrir okkur. Ég hef mikla trú á því að það borgi sig margfalt að auka fjölbreytni hópsins og fá til okkar unga og vel menntaða einstaklinga.“

Frá vinstri: Elísa Karen Guðmundsdóttir, Helena Rut Pétursdóttir, Róbert Vilhjálmur Ásgeirsson, Magdalena Anna Torfadóttir, Ellen Melkorka Hine og Baldvin Bjarki Gunnarsson.
Á myndina vantar Bjarna Ármann Atlason.

 

Til baka

Fleiri fréttir

15.janúar 2024

100% afsláttur af sjóðum til 5. febrúar

Í tilefni af verkefninu Konur fjárfestum er engin þóknun við kaup á sjóðum Stefnis frá 12. janúar til og með 5. febrúar 2024. Afslátturinn af þóknun gildir við...

29.ágúst 2023

Stefnir birtir fjármagnaðan útblástur gróðurhúsalofttegunda

Stefnir stýrir fjármunum fyrir hönd viðskiptavina sinna og leggur ríka áherslu á að gera það með ábyrgum og gagnsæjum hætti.

09.ágúst 2023

Stefnir styrkir Einvígið á Nesinu

Stefnir er stoltur styrktaraðili Einvígisins á Nesinu. Þetta árið hlaut Félag áhugafólks um Downs-heilkennið styrk Stefnis og Birgir Björn úr GK var sigurvegari...