Frétt

10. maí 2022

Blikastaðalandið verður vistvæn byggð milli fella og fjöru

- uppbyggingarsamningur án hliðstæðu

Mosfellsbær og Blikastaðaland ehf., félag í endanlegri eigu Arion banka hf. í gegnum sjóðinn SRL slhf. í stýringu Stefnis hf., hafa undirritað samstarfssamning um uppbyggingu sjálfbærrar og mannvænnar byggðar í landi Blikastaða.

Blikastaðaland er stærsta óbyggða landsvæði höfuðborgarsvæðisins. Svæðið er á sveitarfélagamörkum við Reykjavík og afmarkast af golfvelli Golfklúbbs Mosfellsbæjar í norðri, Korpúlfsstaðavegi og Vesturlandsvegi í suðri, núverandi byggð í Mosfellsbæ í austri og Úlfarsá í vestri. Alls er svæðið um 87 hektarar, en þar af er gert ráð fyrir að nýtanlegt land til uppbyggingar nýs íbúða- og atvinnusvæðis sé um 80 hektarar.

Í samkomulaginu er gert ráð fyrir að fjöldi íbúða verði 3.500 til 3.700 talsins, blanda fjölbýlis og sérbýlis, auk 150 íbúða fyrir 55 ára og eldri, skóla, íþróttaaðstöðu og atvinnuhúsnæðis. Samkomulagið felur í sér að Blikastaðaland tekur þátt í uppbyggingu svæðisins í takt við framvindu uppbyggingarinnar og mun Mosfellsbær fá allt landið endurgjaldslaust til eignar eftir því sem þróun svæðisins vindur fram.

Í Blikastaðalandi verður fallegt útsýni til allra átta, út sundin og jökulsýn á góðum degi. Þá verður stutt í hvers konar útivist þar sem fellin, göngustígar, ár, fjörur og golfvellir eru til beggja handa.

Fram undan er skipulagsvinna á svæðinu sem felur í sér undirbúning breytinga á aðalskipulagi og í kjölfar þess gerð deiliskipulags. Í allri hönnun verður tekið mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Leitast verður við að skapa vandað, umhverfisvænt og mannvænt bæjarumhverfi. Í þeirri vinnu er aðkoma íbúa í Mosfellsbæ tryggð.

Þorgerður Arna Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Blikastaðalands ehf.:

„Við sjáum mikil tækifæri í uppbyggingu þéttrar, sjálfbærrar og mannvænnar byggðar á Blikastaðalandi í takti við innleiðingu á Borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu. Ljóst er að mikil þörf er fyrir íbúðahúsnæði um þessar mundir og því rétt að hefja uppbyggingu eins fljótt og auðið er. Falleg og ósnortin náttúra er skammt frá landinu sem og útivistarperlurnar Úlfarsfell og Úlfarsá. Þessi náttúrugæði eru sérstaða Mosfellsbæjar og það er ákveðin áskorun að tvinna nýja byggð saman við náttúru svæðisins svo úr verði aðlaðandi og fallegur bæjarhluti. Það er því mikilvægt að vanda til verka, en að sama skapi fellur verkefnið afar vel að markmiðum Arion banka og Stefnis um ábyrgar fjárfestingar sem hafa jákvæð áhrif á umhverfi og samfélag. Við erum spennt fyrir verkefninu og hlökkum til að taka þátt í að gera það að veruleika.“

Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar:

„Íbúðabyggð á Blikastaðalandinu hefur lengi verið á aðalskipulagi Mosfellsbæjar og það er fagnaðarefni að þetta mikilvæga uppbyggingarverkefni sé nú leitt til farsælla lykta. Ég veit ekki til þess að stærri samningur um uppbyggingu íbúðahverfis hafi verið gerður hér á landi, enda er um að ræða tímamótasamning sem skiptir núverandi og verðandi Mosfellinga og Blikastaðaland afar miklu máli. Samningurinn tryggir farsæla uppbyggingu hér í Mosfellsbæ, uppbyggingu sem er til þess fallin að efla þjónustu og lífsgæði Mosfellinga og efla samfélag okkar á alla lund. Þá verður ekki framhjá því litið að uppbygging á landi Blikastaða verður lykilþáttur í að tryggja gott lóðaframboð á höfuðborgarsvæðinu sem mætir þeirri eftirspurn eftir húsnæði sem við höfum fundið svo vel fyrir í okkar vexti síðustu ár. Blikastaðir eru mikilvægur hluti bæjarins okkar og það verður mjög ánægjulegt að sjá nýtt og skemmtilegt hverfi byggjast upp á þessu fallega landi milli fella og fjöru á næstu árum.“

 

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri í Mosfellsbæ, og Þorgerður Arna Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Blikastaðalands ehf.

 

Til baka

Fleiri fréttir

10.maí 2022

Blikastaðalandið verður vistvæn byggð milli fella og fjöru

Mosfellsbær og Blikastaðaland ehf., félag í endanlegri eigu Arion banka hf. í gegnum sjóðinn SRL slhf. í stýringu Stefnis hf., hafa undirritað samstarfssamning...

11.apríl 2022

Jón Finnbogason ráðinn framkvæmdastjóri Stefnis

Jón Finnbogason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Stefnis hf. og mun taka við starfinu 1. maí. Jón hefur starfað á fjármálamarkaði við margvísleg stjórnunar-...

25.mars 2022

Fermingarbörn fá mótframlag ef þau kaupa í sjóðum Stefnis

Fáðu meira fyrir fermingarpeninginn hjá Stefni. Ef lagðar eru inn 30.000 kr. eða meira í einhvern af sjóðum Stefnis þá leggur Stefnir til 6.000 kr. mótframlag...

Þessi síða notar vafrakökur. Lesa meira